Boðskiptakenninga Gregory Bateson


Gregory Bateson þróaði á sjötta áratugnum heildstæða og yfirgripsmikla kenningu sem kölluð er boðskiptakenning. Hann notaði leik sem frumdæmi um boðskipti. Byggði hann kenningu sína á rannsóknum á leik dýra, aðalega á leik otra og apa.

Boðskiptakenningin hefur haft gífurlega mikla þýðingu fyrir rannsóknir á ýmsum sviðum mannlegs lífs sem í fljótu bragði virðast alls óskyld. Kenningin hefur varpað nýju ljósi á ýmis vandamál í félagslegum samskiptum, málvísindum, kennslufræði (hvernig einstaklingur lærir að læra) og sállækningum, aukið skilning manna á geðklofa og jafnvel skilning á eðli skopskyns og hláturs.

Bateson hafði áhuga á að komast að því hvernig otrar, sem eru í leik, vita hvort þeir eru í leik eða ekki. Otrar sem eru í leik, haga sér nánast alveg eins og otrar sem eru að slást. Þeir elta hver annan, bíta og glefsa, velta sér og svo framvegis. Við furðum okkur á því hvernig otur, sem hittir annan otur fer að því að vita hvort hann með glefsi sínu vill fara að slást eða leika sér. Bateson komst að þeirri niðurstöðu að allan tímann, sem þeir eru í leik, senda þeir hver öðrum hliðarskilaboð sem þýða: „þetta er leikur, þú skalt ekki halda að ég ætli að bíta þig, þótt ég sé að glefsa í þig“. Bateson heldur því fram að skilaboð feli ævinlega í sér marga túlkunarmöguleika.

Á sviði sállækninga hafa hliðarboðskipti vakið athygli og verið rannsökuð í tengslum við samskiptaörðugleika milli fullorðinna og milli fullorðinna og barna.

Bendingar sem merki um leik, sem dýrum er lífsnauðsynlegt að skilja og túlka, eru mismunandi hjá mismunandi dýrategundum. Vísindamenn hafa lýst slíkum merkjum hjá dýrum, til dæmis hafa apar opinn munn, eru slappir og öfgakenndir í hreyfingum. Hundar dilla rófunni og svo framvegis.

Börn hafa margar og ólíkar aðferðir til þess að gefa til kynna að þau séu í leik. Í ærsla- eða ólátaleikjum eru börnin glöð á svipin, þau hlægja, hoppa og slá með opinni hönd í stað þess að kreppa hnefana eins og í alvöruslagsmálum. Þegar þau eru að leika sér með hluti eða leikföng er líkaminn afslappaður og andlitið opið og glaðlegt.

Öll dýr, sem eiga langa bernsku og hafa sveigjanlegt taugakerfi, leika sér. En mannsbarnið eitt getur þóst vera einhver annar en það er og búið til eða spunnið flókna atburðarás í leik, með öðrum orðum, leikið þykjustuleik og hlutverkaleik.

Bateson telur að hliðarboðskipti séu meginforsenda allra mannlegra samskipta. Frá sjónarmiði Bateson er mikilvægt að það er í leik sem börn læra að til eru alls konar gerðir og flokkar hegðunar. það er í leik sem börn læra að öll hegðun fer fram í tilteknu samhengi og ákvarðast af því. Það er í leik sem barnið lærir að hver einstaklingur gegnir ýmsum hlutverkum og er samt hann sjálfur.