Gagnvirkniskenning Berit Bae


Berit Bae er norskur lektor í uppeldisfræði. Hugmyndir Bae eiga fyrst og fremst rætur sínar að rekja til gagnvirkniskenninga sem einblína á samspil a.m.k. tveggja einstaklinga, þar sem markmiðið er þróun sjálfsins.

Bae er upptekin af því hvaða forsendur liggja að baki þróunar sjálfsins og með hvaða hætti starfsfólk leikskóla vinnur að þróun sjálfsins hjá börnunum.

Í rannsóknum sínum telur Bae sig m.a. komast að því að viðhorf, viðmót og öll framkoma starfsmanna gagnvart börnunum og starfsfélögum skapi forsendur fyrir þróunarmöguleikum þessara aðila.

Bae hefur sett fram hugtök og hugtakapör sem hér verður í nokkrum orðum gerð grein fyrir.

Nálægð: Nálægð er hægt að skilgreina sem ferli þar sem viðkomandi ákveður að nálgast ákveðinn einstakling eða einstaklinga. Hann vill kynnast honum með opnum huga, viðhorfum hans, hugsunum og löngunum. Hér verður að vera einlægur vilji til nálgunar. Hann verður að vilja kynnast barninu eða samstarfsfélögum og þannig forðast t.d. að mynda sér skoðanir á viðkomandi út frá einhverjum öðrum þáttum en að hafa raunverulega kynnst viðkomandi.

Viðurkenning: Hugtakið viðurkenning beinist að því að vilja í einlægni stuðla að þróun viðkomandi. Viðurkenning er ein mikilvæg forsenda þróunar sjálfsins og er hún grundvölluð á jafnræði. Tengslin og samspilið getur ekki orðið viðurkennandi ef annar aðilinn í samspilinu lítur á sig sem minni máttar eða hinum æðri.

Viðurkenning hins fullorðna felur í sér að viðhorf hans til barnsins sé að það hafi rétt til sjálfstæðra hugsana. Viðurkenningin felur í sér að hinn fullorðni leyfir barninu að vera „sérfræðingur“ í eigin upplifun og reynslu og smám saman að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum, eigin lífi. Hlustun er því hér ákvaflega mikilvæg. Það þýðir að geta hlustað og heyrt það sem raunverulega er sagt. Það sem ekki er sagt með orðum birtist í margvíslegri líkamstjáningu barnsins og þar fær leikskólakennarinn mikla vitneskju um tilfinningar, ætlanir og viðhorf barnsins.

Bae telur að „góður“ leikskólakennari þurfi að hafa þjálfað með sér þá færni að sjá alltaf öll börnin sem hann leikur með hverju sinni. Stundum kallað „já ég sé þig“ hvatann.

Skilgreiningarvald: Skilgreiningarvald vísar til þess að ákveðin persóna gegnir ákveðinni stöðu og með því að vera í þessari stöðu fær hún vald til að ákvarða um gjörðir barna og fullorðinna. Í kenningum um gagnvirkt samspil eru viðurkennandi tengsl mikilvægur áhrifavaldur í allri mannlegri þróun.

Við notum og/eða misnotum skilgreiningarvald meðvitað og ómeðvitað í öllu samspili.

Til að skilgreina hvenær skilgreiningarvaldið veldur tjóni í samspilinu telur Bae að hinn fullorðni þurfi að ígrunda samspilið og aðgreina hugsanir sínar, langanir og ætlanir þannig að viðkomandi viti hvað er mitt og hvað er þitt í samspilinu.

Ígrundun – aðgreining: Til að vera heill í hinu viðurkennandi atferli þarf viðkomandi að gera sér grein fyrir eigin viðbrögðum. Í dagsins önn er oft auðvelt að grípa inn í t.d. þegar börn eru að gera eitthvað sem ekki er ætlast til að þau geri. Við þess konar aðstæður skiptir mjög miklu máli hvernig leikskólakennarinn tekur á málum.

Staðfesting: Bae talar um hugtakið staðfestingu. Hún telur að börnin leiti eftir staðfestingu varðandi hegðun sína og gjörðir. Hvernig hinn fullorðni staðfestir gjörðir barnanna í víðum skilning hefur áhrif á þroskamöguleika þeirra. Staðfestingin tekur til margra þátta og er því vandmeðfarin og gefur hinum fullorðna mikið vald til að ákvarða hvað er rétt og hvað er rangt, hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt.

Staðfestingin gengur út á samspilið milli góðs og ills, þess sem er rétt og þess sem er rangt. Hér er því tekist á um siðferðileg atriði. Staðfestingin er þar af leiðandi nátengd næsta hugtaki.

Tengsl við barn: Bae telur sig hafa fundið í rannsóknum sínum að það er alltaf eitthvert annað barn sem fylgist með samskptum tveggja (fullorðins og barns). Bae telur þetta sérstaklega áberandi þegar mikilar tilfinningar eru í samspili þessara tveggja. Hér er t.d. átt við þegar leikskólakennarinn er að vanda um við viðkomandi barn. Áhorfandinn lærir jafvel meira af þessum samskiptum en barnið sem er virkt í samspilinu. Það lærir hvað má og hvað má ekki og það lærir hvers það sjálft getur vænst af leikskólakennaranum við svipaðar aðstæður. Þannig þarf leikskólakennarinn að vera meðvitaður um að hann er ekki eingöngu að hafa áhrif á barnið sem hann er í virku samspili við, heldur er hann einnig samtímis óbeint að hafa áhrif á þróun og þroska hugsanlegra áhorfenda.

Í niðurstöðum sínum segir Berit Bae að það sé erfitt að skilja það sem gerist í samskiptum milli barns og fullorðins, án þess að líta á það sem gerist í samskiptum hinna fullorðnu í umhverfinu. Hún telur að óskýr og óörugg viðbrögð fullorðinna sín á milli geti orðið til þess að ekki sé hlustað á það sem börnin eru að segja með orðum og athöfnum.