Leikskólinn Álfheimar
Álfheimar eru leikskóli staðsettur á horni Sólvalla og Reynivalla á Selfossi á svokölluðu Eikatúni sem kennt var við Eirík Bjarnason sem bjó á Reynivöllum 9.
Áherslur í öllu starfi okkar eru á leikinn sem aðalnámleið barnanna, samskipti milli barna, á milli barna og starfsfólks og síðast en ekki síst sjálfbærni- og útinám í ýmsum birtingamyndum.
Leikskólinn hefur í tvo áratugi unnið að markmiðum Landverndar um Grænfána og hefur undantekningarlaust fengið góða umsögn í úttektum Landverndar, fyrst árið 2004 og nú síðast vorið 2022. Þannig gátum við nú í vor flaggað grænfánanum með stolti í tíunda sinn.
Umhverfismál eru okkur því hugleikin og leggjum við megin áherslu á að nýta, njóta og vernda náttúruna og umhverfið í kringum okkur. Þá teljum við að reynslumiðað nám (e. Learning by doing) skilji mest eftir í hugum barna á þessum aldri, þar ná þau að tengja saman orð og athafnir.
Fjölmörg verkefni endurspegla þetta og hér langar okkur að tæpa á þeim helstu.
Skógarferðir, Gullin í grenndinni, útinám og átthagar
Öll börn leikskólans fara í vikulegar skógarferðir þar sem börnin ganga saman út í skóg og njóta þar útiveru, leikja og samveru, oftast með nesti í för.
Útinám þar sem börnin velja sjálf verkefni dagsins, kennarinn er á hliðarlínunni með stuðning og önnur úrræði. Þetta eflir sköpunarkraft og hugmyndaflug, sjálfstæði og lýðræði.
Átthagaverkefni sem snýst um nærumhverfið, að barnið læri að staðsetja sig í samfélaginu, upplifi sérkenni svæðisins og heyri um það sögur. Í þessum verkefnum fræðast börnin til dæmis um Tryggvaskála, Ölfusárbrú, vinnustaði í sveitarfélaginu og söfn í sveitarfélaginu.
Gullin í grenndinni er samstarfsverkefni Álfheima og Vallaskóla þar sem tveir elstu árgangar leikskólans hitta tvo yngstu bekki Vallaskóla. Saman fara þau í minni hópum í skógarferðir um það bil einu sinni í mánuði.
Þá höfum við í nokkur ár verið í skemmtilegu og gefandi samstarfi við Vinaminni þar sem lítill hópur barna fer reglulega yfir veturinn í heimsókn og okkur berast reglulega fléttuð vinabönd frá þeim sem við notum í gönguferðum. Þá fer hópur barna einnig reglulega og syngur á Ljósheimum, Fossheimum og Móbergi.
Grænálfar, moltugerð og ræktun
Börnin skiptast á að vera Grænálfar og fá þá að spreyta sig í að taka ábyrgð á umhverfi sínu, þau strjúka af borðum fyrir matinn, leggja á borðið, flokka úrgang og margt fleira. Þetta eflir skilning þeirra á umhverfismennt og eykur um leið sjálfstæði þeirra.
Þá er skólinn með tvær tegundir moltugerðar, aðra innandyra með aðstoð haugána og hina utandyra í hefðbundnum moltutunnum.
Á undanförnum misserum hefur áhugi aukist mjög á því að rækta grænmeti og kryddjurtir bæði úti og inni. Við skólann eru fjórir gróðurkassar til útiræktunar og hafa þeir verið nýttir undir kartöflur, gulrætur, rabbabara, skessujurt o.fl. Þar að auki höfum við haft afnot af grenndargörðum bæjarins og ræktað þar kartöflur. Vonumst við til að í náinni framtíð getum við komið okkur upp gróðurhúsi.
Með því að taka þátt í moltugerð og ræktun gefst börnunum gott tækifæri til að fylgjast með náttúrulegri hringrás í vistkerfinu okkar og hvaðan maturinn kemur.
6. febrúar ár hvert er Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur. Markmiðið með Degi leikskólans er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og um leið beina athygli samfélagsins að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins á hverjum degi.
Börn og starfsfólk í Álfheimum