Hugmyndafræði og uppeldisleg sýn

Áhersla er lögð á góð samskipti milli barna og fullorðinna, milli barna og barna og milli fullorðinna og fullorðinna, sem byggjast á virðingu, hlýju og trausti.

Þær kenningar sem fjalla um leik barna og samskipti manna, hafa verið starfsfólki Álfheima hugleiknar í gegnum tíðina. Boðskiptakenning Gregory Bateson bandarísks félagmannfræðings ber þar hæst. Boðberar hennar þær Birgitta K. Olofsson sænskur lektor í uppeldis- og sálarfræði og Berit Bae doktor í uppeldisfræði við Háskólann í Osló hafa með rannsóknum sínum á leik barna komist að því, eins og Bateson, að leikurinn er fyrst og fremst boðskipti. Kenningin fjallar um það sem fram fer í samspili barna í leik, á hvaða stigi boðskiptin eru og hvaða boðskipta- eða samskiptamynstur þau endurspegla.