Álfheimar


Í sumarfríslokun leikskólans Álfheima hafa verið gerðar miklar breytingar á húsnæði leikskólans. Þar má nefna stækkun eldhúss og bættrar salernisaðstöðu á Óskasteini. Það er mikið fagnaðarefni.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á þessar framkvæmdir en því miður sjáum við ekki fram á að þeim verði lokið fyrir hádegi á fimmtudag.

Af þeim sökum verður ekki hægt að opna leikskólann aftur eftir sumarleyfi fyrr en mánudaginn 10. ágúst.  

Ég vona að þetta valdi ykkur ekki miklum erfiðleikum og vegna þessa verður leikskólagjald að sjálfsögðu fellt niður fimmtudag og föstudag í þessari viku.


 

____________________________________________________________________________________________________

 

 

 - mynd

 

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypir í dag af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.

Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!

Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum sem nú eru uppi, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.

Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu munum við freista þess að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.

Umgjörð og útlit verkefnisins tekur mið af markmiðinu, þar sem ætlunin er að virkja keppnisskap þjóðarinnar. Merki verkefnisins svipar til merkja íþróttafélaga, keppnistreyjur verða veittar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins og leitað verður samstarfs víða til að virkja sem flesta. Ef vel tekst til, gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim.

Tekið af: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/01/Timi-til-ad-lesa-Raektum-lesandann-og-setjum-fyrsta-heimsmetid-i-lestri/

Við hvetjum börn, foreldra og starfsfólk til að taka þátt í verkefninu.

_____________________________________________________________________________________________________________

Við getum öll haft áhrif. Ráðstefna Skóla á grænni grein 2020 var yfirskrift ráðstefnu Landverndar sem var haldinn 7.  febrúar sl. Þar var fjallað um þær áskoranir sem fylgja skólastarfi á tímum loftslagsbreytinga og var sjónum beint að valdeflandi aðferðum og verkfærum sem nota má með nemendum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra veitti viðurkenningar og leikskólinn Álfheimar fékk viðurkenningu fyrir langt og farsælt starf með verkefnið skólar á grænni grein.

Leikskólinn Álfheimar hefur frá því í júní 2004 flaggað Grænfánanum sem er alþjóðlegt merki um gott umhverfisstarf í skólum og skipar vistvernd í verki stóran sess í starfi skólans. Grænfáninn er afhendur til tveggja ára í senn og fékk leikskólinn hann endurnýjaðan 2006, 2008, 2010, 2014, 2016 og 2018.

 

_________________________________________________________________________________________________

Skipulagsdagar 2019-2020

Á skipulagsdögum er leikskólinn lokaður. Skipulagsdaga má sjá á skóladagatali.

Fimmtudagurinn 8. ágúst 2019 – Skipulagsdagur

Föstudagurinn 4. október 2019 – Haustþing

Mánudagurinn 4. nóvember 2019 – Skipulagsdagur

Mánudagurinn 3. febrúar 2020 – Skipulagsdagur

Miðvikudagurinn 18. mars 2020 – Skóladagur Árborgar

Miðvikudagurinn 10. júní 2020 – Skipulagsdagur

___________________________________________________________________________________

Leikskólinn Álfheimar var opnaður 13. desember 1988. Leikskólinn stendur á horni Sólvalla og Reynivalla á svokölluðu Eikatúni sem kennt var við Eirík Bjarnason sem bjó á Reynivöllum 9.

Í upphafi var í leikskólanum ein leikskóladeild, skóladagheimilisdeild og fyrstu tvö árin var 1. bekkur grunnskólans í vestur enda hússins. Árið 1944 flytur skóladagheimilið í Vallaskóla og við það verður leikskólinn 3ja deilda þar til í febrúar 2006 þegar 4. deildin bættist við. Deildirnar heita Álfasteinn, Dvergasteinn, Óskasteinn og Völusteinn.

Í Álfheimum er lögð áhersla á samskipti og vellíðan í leik og starfi auk virðingar fyrir náttúrunni.

Einkunnarorð leikskólans eru Virðing – hlýja – traust.

Álfheimar eru Grænfánaskóli og flaggaði fyrsta grænfánanum í júní 2004.

Útivist er stór þáttur í starfi leikskólans en öll börn leikskólans fara i skógarferð einu sinni í viku.

Nánar má lesa um starf leikskólans í Skólanámskrá Álfheima