Leikskólinn Álfheimar 35 ára

Álfheimar fagna 35 ára afmæli miðvikudaginn 13. desember 2023. Í Álfheimum dvelja dag hvern um 100 börn á 5 deildum. Virðing, hlýja og traust eru einkunnarorð leikskólans og í öllu starfi er lögð áhersla á samskipti og vellíðan í leik og starfi auk virðingar fyrir náttúrunni.  

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins og aðalkennslutækið okkar í leikskólunum. Í leik felst mikið sjálfsnám og honum fylgir bæði gaman og alvara þar sem barnið lærir margt út frá eigin hugarheimi og upplifun. Barnið lærir í leiknum félagsleg samskipti, það lærir að tjá tilfinningar sínar og þjálfar notkun tungumálsins. Leikur getur veitt gleði og vellíðan en um leið falið í sér valdabaráttu og átök.  

Leikskólinn hefur frá því árið 1998 unnið markvisst að umhverfismenntun. Árið 2000 varð leikskólinn græn fjölskylda í verkefninu vistvernd í verki og flaggaði fyrst Grænfánanum árið 2004. Grænfáninn er alþjóðlegt merki um gott umhverfisstarf í skólum og þarf að sækja um endurnýjun á tveggja ári fresti.  

Frá því 2002 hafa skógarferðir verið fastur liður í starfi leikskólans en þar fá börnin tækifæri til að leika úti í náttúrunni. Elstu börnin fara í Vinaskóg (hjá Gesthúsum) og þau yngri byrja á að fara í skógarferðir á Enginu. Rannsóknir og okkar reynsla sýna að talsvert minna er um árekstra milli barnanna úti í náttúrunni.  

Á síðust árum höfum við verið að þróa útinám enn frekar á afgirtu svæði í garðinum sem fékk nafnið Friðland. Þar eru elstu börnin (1-2 árgangar) í útinámi og aðaláherslan er á að virkja sköpunarkraft barnanna sjálfra, efla sjálfstæði þeirra og um leið lýðræði í leikskólanum.  

Í tilefni af afmæli leikskólans verður opið hús á afmælisdaginn miðvikudaginn 13. desember milli 9:00 og 11:00. Við hvetjum sem flesta til að kíkja á okkur í leik og starfi.