Hugmyndafræði og uppeldisleg sýn
Áhersla er lögð á góð samskipti milli barna og fullorðinna, milli barna og barna og milli fullorðinna og fullorðinna, sem byggjast á virðingu, hlýju og trausti.
Þær kenningar sem fjalla um leik barna og samskipti manna, hafa verið starfsfólki Álfheima hugleiknar í gegnum tíðina. Boðskiptakenning Gregory Bateson bandarísks félagmannfræðings ber þar hæst. Boðberar hennar þær Birgitta K. Olofsson sænskur lektor í uppeldis- og sálarfræði og Berit Bae doktor í uppeldisfræði við Háskólann í Osló hafa með rannsóknum sínum á leik barna komist að því, eins og Bateson, að leikurinn er fyrst og fremst boðskipti. Kenningin fjallar um það sem fram fer í samspili barna í leik, á hvaða stigi boðskiptin eru og hvaða boðskipta- eða samskiptamynstur þau endurspegla.
Gregory Bateson þróaði á sjötta áratugnum heildstæða og yfirgripsmikla kenningu sem kölluð er boðskiptakenning. Hann notaði leik sem frumdæmi um boðskipti. Byggði hann kenningu sína á rannsóknum á leik dýra, aðalega á leik otra og apa.
Boðskiptakenningin hefur haft gífurlega mikla þýðingu fyrir rannsóknir á ýmsum sviðum mannlegs lífs sem í fljótu bragði virðast alls óskyld. Kenningin hefur varpað nýju ljósi á ýmis vandamál í félagslegum samskiptum, málvísindum, kennslufræði (hvernig einstaklingur lærir að læra) og sállækningum, aukið skilning manna á geðklofa og jafnvel skilning á eðli skopskyns og hláturs.
Bateson hafði áhuga á að komast að því hvernig otrar, sem eru í leik, vita hvort þeir eru í leik eða ekki. Otrar sem eru í leik, haga sér nánast alveg eins og otrar sem eru að slást. Þeir elta hver annan, bíta og glefsa, velta sér og svo framvegis. Við furðum okkur á því hvernig otur, sem hittir annan otur fer að því að vita hvort hann með glefsi sínu vill fara að slást eða leika sér. Bateson komst að þeirri niðurstöðu að allan tímann, sem þeir eru í leik, senda þeir hver öðrum hliðarskilaboð sem þýða: „þetta er leikur, þú skalt ekki halda að ég ætli að bíta þig, þótt ég sé að glefsa í þig“. Bateson
heldur því fram að skilaboð feli ævinlega í sér marga túlkunarmöguleika.
Á sviði sállækninga hafa hliðarboðskipti vakið athygli og verið rannsökuð í tengslum við samskiptaörðugleika milli fullorðinna og milli fullorðinna og barna.
Bendingar sem merki um leik, sem dýrum er lífsnauðsynlegt að skilja og túlka, eru mismunandi hjá mismunandi dýrategundum. Vísindamenn hafa lýst slíkum merkjum hjá dýrum, til dæmis hafa apar opinn munn, eru slappir og öfgakenndir í hreyfingum. Hundar dilla rófunni og svo framvegis.
Börn hafa margar og ólíkar aðferðir til þess að gefa til kynna að þau séu í leik. Í ærsla- eða ólátaleikjum eru börnin glöð á svipin, þau hlægja, hoppa og slá með opinni hönd í stað þess að kreppa hnefana eins og í alvöruslagsmálum. Þegar þau eru að leika sér með hluti eða leikföng er líkaminn afslappaður og andlitið opið og glaðlegt.
Öll dýr, sem eiga langa bernsku og hafa sveigjanlegt taugakerfi, leika sér. En mannsbarnið eitt getur þóst vera einhver annar en það er og búið til eða spunnið flókna atburðarás í leik, með öðrum orðum, leikið þykjustuleik og hlutverkaleik.
Bateson telur að hliðarboðskipti séu meginforsenda allra mannlegra samskipta. Frá sjónarmiði Bateson er mikilvægt að það er í leik sem börn læra að til eru alls konar gerðir og flokkar hegðunar. Það er í leik sem börn læra að öll hegðun fer fram í tilteknu samhengi og ákvarðast af því. Það er í leik sem barnið lærir að hver einstaklingur gegnir ýmsum hlutverkum og er samt hann sjálfur.
Berit Bae er norskur lektor í uppeldisfræði. Hugmyndir Bae eiga fyrst og fremst rætur sínar að rekja til gagnvirkniskenninga sem einblína á samspil a.m.k. tveggja einstaklinga, þar sem markmiðið er þróun sjálfsins.
Bae er upptekin af því hvaða forsendur liggja að baki þróunar sjálfsins og með hvaða hætti
starfsfólk leikskóla vinnur að þróun sjálfsins hjá börnunum.
Í rannsóknum sínum telur Bae sig m.a. komast að því að viðhorf, viðmót og öll framkoma starfsmanna gagnvart börnunum og starfsfélögum skapi forsendur fyrir þróunarmöguleikum þessara aðila.
Bae hefur sett fram hugtök og hugtakapör sem hér verður í nokkrum orðum gerð grein fyrir.
Nálægð: Nálægð er hægt að skilgreina sem ferli þar sem viðkomandi ákveður að nálgast ákveðinn einstakling eða einstaklinga. Hann vill kynnast honum með opnum huga, viðhorfum hans, hugsunum og löngunum. Hér verður að vera einlægur vilji til nálgunar. Hann verður að vilja kynnast barninu eða samstarfsfélögum og þannig forðast t.d. að mynda sérskoðanir á viðkomandi út frá einhverjum öðrum þáttum en að hafa raunverulega kynnst viðkomandi.
Viðurkenning: Hugtakið viðurkenning beinist að því að vilja í einlægni stuðla að þróun viðkomandi. Viðurkenning er ein mikilvæg forsenda þróunar sjálfsins og er hún grundvölluð á jafnræði. Tengslin og samspilið getur ekki orðið viðurkennandi ef annar aðilinn í samspilinu lítur á sig sem
minni máttar eða hinum æðri.
Viðurkenning hins fullorðna felur í sér að viðhorf hans til barnsins sé að það hafi rétt til sjálfstæðra hugsana. Viðurkenningin felur í sér að hinn fullorðni leyfir barninu að vera „sérfræðingur“ í eigin upplifun og reynslu og smám saman að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum, eigin lífi. Hlustun er því hér ákvaflega mikilvæg. Það þýðir að geta hlustað og heyrt það sem raunverulega er sagt. Það sem ekki er sagt með orðum birtist í margvíslegri líkamstjáningu barnsins og þar fær leikskólakennarinn mikla vitneskju um tilfinningar, ætlanir og viðhorf barnsins.
Bae telur að „góður“ leikskólakennari þurfi að hafa þjálfað með sér þá færni að sjá alltaf öll börnin sem hann leikur með hverju sinni. Stundum kallað „já ég sé þig“ hvatann.
Skilgreiningarvald: Skilgreiningarvald vísar til þess að ákveðin persóna gegnir ákveðinni stöðu og með því að vera í þessari stöðu fær hún vald til að ákvarða um gjörðir barna og fullorðinna. Í kenningum um gagnvirkt samspil eru viðurkennandi tengsl mikilvægur áhrifavaldur í allri mannlegri þróun.
Við notum og/eða misnotum skilgreiningarvald meðvitað og ómeðvitað í öllu samspili.
Til að skilgreina hvenær skilgreiningarvaldið veldur tjóni í samspilinu telur Bae að hinn fullorðni þurfi að ígrunda samspilið og aðgreina hugsanir sínar, langanir og ætlanir þannig að viðkomandi viti hvað er mitt og hvað er þitt í samspilinu.
Ígrundun – aðgreining: Til að vera heill í hinu viðurkennandi atferli þarf viðkomandi að gera sér grein fyrir eigin viðbrögðum. Í dagsins önn er oft auðvelt að grípa inn í t.d. þegar börn eru að gera eitthvað sem ekki er ætlast til að þau geri. Við þess konar aðstæður skiptir mjög miklu máli hvernig leikskólakennarinn tekur á málum.
Staðfesting: Bae talar um hugtakið staðfestingu. Hún telur að börnin leiti eftir staðfestingu varðandi hegðun sína og gjörðir. Hvernig hinn fullorðni staðfestir gjörðir barnanna í víðum skilning hefur áhrif á þroskamöguleika þeirra.
Staðfestingin tekur til margra þátta og er því vandmeðfarin og gefur hinum fullorðna mikið vald til að ákvarða hvað er rétt og hvað er rangt, hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt. Staðfestingin gengur út á samspilið milli góðs og ills, þess sem er rétt og þess sem er rangt. Hér er því tekist á um siðferðileg atriði. Staðfestingin er þar af leiðandi nátengd næsta hugtaki.
Tengsl við barn: Bae telur sig hafa fundið í rannsóknum sínum að það er alltaf eitthvert annað barn sem fylgist með samskptum tveggja (fullorðins og barns). Bae telur þetta sérstaklega áberandi þegar mikilar tilfinningar eru í samspili þessara tveggja. Hér er t.d. átt við þegar leikskólakennarinn er að vanda um við viðkomandi barn. Áhorfandinn lærir jafvel meira af þessum samskiptum en barnið sem er virkt í samspilinu. Það lærir hvað má og hvað má ekki og það lærir hvers það sjálft getur vænst af leikskólakennaranum við svipaðar aðstæður. Þannig þarf leikskólakennarinn að vera meðvitaður um að hann er ekki eingöngu að hafa áhrif á barnið sem hann er í virku samspili við, heldur er hann einnig samtímis óbeint að hafa áhrif á þróun og þroska hugsanlegra áhorfenda.
Í niðurstöðum sínum segir Berit Bae að það sé erfitt að skilja það sem gerist í samskiptum milli barns og fullorðins, án þess að líta á það sem gerist í samskiptum hinna fullorðnu í umhverfinu. Hún telur að óskýr og óörugg viðbrögð fullorðinna sín á milli geti orðið til þess að ekki sé hlustað á það sem börnin eru að segja með orðum og athöfnum.
Birgitta Knutsdotter Olofsson er öflugur boðberi boðskiptakenningar Bateson. Árið 1986 byrjaði hún að vinna að rannsóknarverkefni um „leikinn sem uppeldisaðferð“. Hún hóf starfið með því að kynna sér aðþjóðlegar rannsóknir á leik barna síðustu tíu árin og tengja þær við hagnýtar athuganir í leikskólum í heimalandi sínu. Skýrsla hennar um þessar kannanir er bókin „Lek för livet“ sem kom út í Svíþjóð árið 1987.
Olofsson hefur gert grein fyrir sex undirstöðuatriðum í kenningu sinni um leik og leikuppeldi.
1. Hliðarskilaboð mynda sálærna umgjörð um leikinn, barnið prófar og rifjar upp án mikillar
áhægttu því þetta er nefnilega „allt í gamni“.
2. Áhersla á mikilvægi og hlutverk fullorðna fólksins í leikuppeldi. Barnið áttar sig snemma á
muninum á hvað er leikur og hvað er ekki leikur.
3. Byrjunargeta allra leikgerða birtist þegar á fyrsta ári barnsins. Þær þróast og dafna fram
eftir aldri.
4. Fyrst og fremst er leikurinn viðhorf en ekki frumstætt fyrirbæri eða sérstakt einkenni
bernskunnar. Þetta viðhorf til lífsins í samskiptum við aðra er „krydd lífsins“.
Þykjustuleikurinn er mikilvægastur allra leikja fyrir alhliða þroska barnsins.
5. Þykjustuleikurinn er tjáningarháttur sem ímyndunaraflið kemur skýrt fram í.
6. Leikur er háður ytri aðstæðum svo sem umhverfi og menningu.
Olofsson segir að sú þekking sem til er í dag á leik ungra barna bendi til þess að unnt sé að hafa mikilvæg og jákvæð áhrif á börn í leikskólastarfi. Hún telur að því virkari sem fullorðna fólkið er, því meir sem það örvar leiki almennt, sérstaklega þykjustuleiki, því þróaðri verði hlutverkaleikirnir.