Útikennsla
Leikskólinn Álfheimar hefur um árabil lagt stund á útikennslu þar sem aðal áherslan hefur verið á umhverfismennt og skógarferðir. Við byggjum á þessum góðu hefðum og settum okkur markmið um að auka framboðið á tækifærum til útináms.
Hugmyndafræðin á bak við nýju útikennsluna er að virkja sköpunarkraft barnanna sjálfra, efla sjálfstæði þeirra og um leið lýðræði í leikskólanum. Þess vegna er ekki fyrirlögn að morgni, þ.e. uppskrift af því hvað börnin eiga að gera þann daginn. Þau hafa hins vegar val um fjölbreytt verkefni, sum eru alltaf í boði, önnur koma og fara í formi tilboða.
Megin reglan er sú að kennslan byggi á raunverulegum verkefnum, að kennarinn elti hugmyndir barnsins og hjálpi því að ná lengra með hugmyndir sínar. Við göngum út frá þeirri kenningu að kjöraðstæður náms séu þar sem áhugi nemandans liggur, einnig að raunaðstæður séu vænlegstar til árangurs, því er forgangurinn á þessa leið;
- Hugmyndir barnanna virkjaðar (Hvað viltu gera og hvernig, ég hjálpa þér að ná lengra með það)
- Kennsla í ljósi aðstæðna (Finnum geitungabú, rigning í dag, finnum dauðann fugl, hvað getum við lært af því eða um það)
- Innlögn af almennum toga (t.d. bók- og tölustafir, smíða stafi, mála þá, reikna með könglum eða þ.h.)
Vegna þess hve fjölbreytt verkefnin eru er er afraksturinn sömuleiðis af fjölbreyttum toga. Sem dæmi má nefna fínhreyfingar, grófhreyfingar, þrívíð hugsun, sköpun, læsi, sjálfstæði, hugrekki, og svo mætti lengi áfram telja.
Þar sem þau velja sér verkefnin sjálf haldast þau mun betur að verki, þetta gerir kennaranum kleift að vera leiðbeinandi og styðjandi í samskiptum barnana á milli. Börnin eru stöðugt að æfa sig að setja orð á hvað þau langar að gera, að tala af virðingu við hvort annað og komast að samkomulagi um ýmsa hluti. Þessa færni köllum við félagsfærni, það er færnin til að eiga í árangursríkum samskiptum.
Við erum aldrei með heila deild á útikennslusvæðinu á sama tíma heldur skiptum við börnunum í minni hópa og förum með 8-12 börn í einu. Við þetta minnkar áreitið og börnin fá meiri ró til að einbeita sér og njóta sín í leik.
Það sem einkennir útikennsluna er fyrst og fremst vinnugleði, færri árekstrar og minna stress. Þetta er einskonar friðland þar sem börnin setja eigin dagskrá á leið sinni til þroska.