Vorhátíð Álfheima var haldinn 7. júní síðast liðinn í mildu og þurru veðri. Samhliða vorhátíðinni fékk leikskólinn afhentan Grænfánann í áttunda skipti.
Álfheimar hafa frá árinu 2002 verið skóli á grænni grein sem er alþjóðlegt verkefni í 67 löndum um allan heim. Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefum sem miða að því að efla vitund nemenda og kennara um umhverfismál. Ef markmiðum er náð fær skólinn að flagga Grænfánanum til tveggja ára og eftir þann tíma þarf að sækja um endurnýjun og sýna fram á að enn sé verið að fylgja markmiðum.
Skrefin sjö eru: Umhverfisnefnd, mat á stöðu umhverfismála, áætlun um aðgerðir og markmið, eftirlit og endurmat, námsefnisgerð og tenging við aðalnámskrá, að upplýsa og fá aðra með og að lokum umhverfissáttmáli.
Í tilefni af Grænfánaafhendingunni var nýr umhverfissáttmáli Álfheima sunginn en hann ber heitið “Við erum græn”. Lagið er erlent en Guðný Birgisdóttir leikskólakennari í Álfheimum þýddi og staðfærði textann.
Að lokinni Grænfánaafhendingu var haldið á vorhátið þar sem grillaðar voru pylsur og eldaðar lummur á eldstæðinu. Einnig var hægt að skoða traktor, slökkvibíl og sjúkrabíl auk þess sem geithafurinn Elvis rölti um svæðið.
Starfsfólk leikskólans er sammála um að vorhátiðin og Grænfánaafhendingin hafi tekist afar vel og við þökkum börnum, foreldrum og öðrum gestum kærlega fyrir samveruna.