Námsferð starfsfólks leikskólans Álfheima til Póllands 16.- 20.júní 2010

Dagana 16. – 20. júní fór starfsfólk Álfheima í námsferð til Póllands. Markmið ferðinnar var að stuðla að sí- og endurmenntun  leikskólakennara og annarra starfsmanna leikskólans.

Námsferð til Póllands.


 


Dagana 16. – 20. júní fór starfsfólk Álfheima í námsferð til Póllands. Markmið ferðinnar var að stuðla að sí- og endurmenntun  leikskólakennara og annarra starfsmanna leikskólans. Skipulagsdagar ársins voru nýttir til ferðarinnar.


Heimsóttir voru þrír  leikskólar í Kraków.  Í Álfheimum eru nokkur börn af erlendum uppruna  þar af nokkur pólsk. Einnig starfa tveir pólskir leikskólakennarar í Álfheimum sem skipulögðu ferðina og voru fararstjórar.  Flogið var til Kraków í beinu flugi frá Keflavík.


 Fyrsti leikskólinn sem var heimsóttur var  Waldorfskie Prezdszkole “Pod Skrzydłami”  sem starfar eftir  kenningum  Rudlof Steiner .Grunninn að Waldorf uppeldisfræðinni lagði austurríski náttúruvísindamaðurinn Rudolf Steiner (1861-1925) en hann var náttúruvísindamaður og sálfræðingur. Hugmyndafræði hans hefur verið kölluð mannspeki.
Megináhersla er lögð á að ná jafnvægi milli þeirra þriggja leiða sem tengja manninn umheiminum; líkamlegt starf, tilfinningalífið og hugsanasviði
. Í Waldorf- uppeldisfræði er rík áhersla lögð á að styrkja tengsl barnanna við náttúruna og að barnið öðlist alhliða þroska. Nemendurnir læra í gegnum listina og þroska þannig ímyndunaraflið. Fyrsti skólinn sem fylgdi þessari stefnu var opnaður í Stuttgart árið 1919 og naut mikilla vinsælda. Brátt urðu til leikskólar sem fylgdu sömu stefnu. Í dag eru yfir 900 Waldorf skólar í 83 löndum út um allan heim.
Áhugavert var að sjá og taka þátt í leik og starfi með börnum og kennurum andrúmsloftið rólegt og afslappað.  Börnin tóku þátt í daglegum störfum undir handleiðslu kennarana.  Þau  útbjuggu brauðbollur og báta úr pappír sem þau brutu eftir kúnstarinnar reglum. Allur efniviður var nátturulegur út tré, postulíni og bómullarefnum í mildum náttúrulitum. Öll bönd voru prjónuð og hugmyndaflugið látið ráða ferð. Form hluta var ávalt þannig að umhverfið var skapandi allt gert til að börnin gætu nýtt sína eðlislægu námshvöt í gegnum leik.
Annar  leikskólinn sem við heimsóttum var leikskólinn  Przedszkole Niepubliczne “Kraina Uśmiechu”.  Þar er lögð áhersla á náttúru- og umhverfismennt, hreyfingu, dans, tónlist og enskukennslu. Okkur var boðið inn í danstíma hjá börnunum sem var mjög gaman og var okkur kenndur mjög skemmtilegur hreyfileikur þar sem öll skilningarvit voru svo sannarlega virkjuð. Einnig sungu börnin fyrir okkur. Á útisvæðinu voru þau í skipulögðum leikjum, m.a. voru börnin með stóra fallhlíf sem þau héldu í kantinn á og sum barnanna fóru undir og þá sungu hin “greiða hárið, greiða hárið” og struku fallhlífinni við hár barnanna svo rafmagn myndaðist og lyftu síðan upp við mikinn fögnuð allra.
Þriðji leikskólinn sem við sóttum heim var Przedszkole Integracyjne “Montessori”. Sá leikskóli starfar eftir kenningum Mariu Montessori 1870-1952. Höfuðverkefni Mariu var að auka frelsi og sjálfstæði barnanna. Hún sá, að til að geta framkvæmt það á sem bestan hátt þurfti að hafa ýmislegt í huga eins og innréttingar hússins en þær þurftu að vera í hæð barnanna. Allt átti að vera á sínum stað svo þau gætu gengið að hlutunum sem vísum, einnig til að hver og einn gæti þroskast eftir eigin hraða og forsendum. Í hverjum hóp ættu að vera börn á ólíkum aldri og af báðum kynjum. Einnig skipti miklu máli að kennarinn skyldi vera vel menntaður og fulltrúi menningarinnar. Mariu fannst að börnin ættu að læra af reynslunni um efni og eðli hluta til dæmis ættu bollar og diskar að vera úr postulíni en ekki úr óbrjótandi efni og einnig að plönturnar ættu að vera lifandi en ekki gervi (Myhre, Reidar 2001:182 og Hjördís Fenger 2005).


Áhugavert var að sjá öll þau krefjandi verkefni sem börnin leystu í leikskólanum bæði einstaklingslega og í samvinnu við hvert annað. Kennararnir voru allir með mastersgráðu í leikskólafræðum auk sérnáms í fræðum Maríu Montessori. 


Á þriðja degi voru útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz og Birkenau skoðaðar. Auk þess heimsóttum við Saltnámurnar í Wielieskcha.  Þá gafst okkur tími til að skoða Kraków en gamla miðborgin er á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna.


Síðasta daginn fórum við til Varsjá með lest og þaðan með flugi til Kaupmannahafnar og síðan áfram til Íslands.  Fengum við nokkra klukkutíma til að skoða okkur um í Varsjá og sáum við meðal annars hallargarðinn  ásamt miðbænum.


Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem komu til Selfoss aðfaranótt mánudagsins eftir rúmlega 22 tíma ferðalag og mættu eldhressir til starfa snemma morguns.