Almennar upplýsingar
Ef börn eru veik eiga þau ekki að vera í leikskólanum. Þess vegna biðjum við foreldra um að halda börnunum heima í veikindum. Einnig er nauðsynlegt að hægt sé að ná í einhvern sem getur sótt barnið ef það veikist á leikskólatíma.
Ef um veikindi eða frí er að ræða hjá barni vinsamlegast látið viðkomandi deild vita. Innivera í tengslum við veikindi verður að vera í samráði við deildarstjóra.
Lyfjagjafir á leikskólatíma ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar, því aðeins í undantekningartilfellum þarf að gefa lyf oftar en þrisvar á dag. Þó að lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa. Undantekning á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er skylt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni þar sem fram kemur heiti lyfs og hvenær á að taka inn lyfið. Forráðamönnum er skylt að afhenda deildarstjóra lyfið og þarf hann að kvitta fyrir móttöku þess, heiti og magni. Ekki skal vera nema vikuskammtur af lyfinu í vörslu leikskólans í einu og skal hann geymdur í læstri hirslu.
Ef slys ber að höndum munum við strax hafa samband við foreldra. Allir nemendur sem eru í leikskólum Árborgar eru tryggðir meðan á dvöl þeirra stendur.