Heimsókn á Ljósheima og Fossheima

Hér fyrir neðan er frásögn Rósar Ingadóttur leikskólakennara af heimsóknum hennar og fjögurra barna af Óskasteini á Ljósheima og Fossheima.

Næsta vetur verður þessum heimsóknum haldið áfram með börnum og kennurum á Völusteini

Söngur barnanna á Óskasteini á Ljósheimum og Fossheimum.

Ljósheimar og Fossheimar eru öldrunardeildir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Síðan í janúar 2017 hafa fjögur fimm ára gömul börn af deildinni Óskasteini í leikskólanum Álfheimum, sungið fyrir íbúa Fossheima og Ljósheima einu sinni í mánuði. Við sungum skemmtileg og fjörug barnalög og einnig lög sem íbúarnir kunnu og gátu þá sungið með okkur. Við sungum oftast sömu lögin en bættum alltaf einhverju nýju við.

Mikla kátínu og gleði vakti lagið, Ef okkur langar lífið að létta. Textinn er mjög skemmtilegur og hljóðar svona : Ef okkur langar lífið að létta, svona gerum við það.

Brosum blítt og beygjum fætur

og hristum hausinn, hristum rassinn,

hristum okkur öll.

Setjum hendur út, slá á mallakút

Og svo setjum við á munninn stút.

Að þessum söng loknum voru nær allir íbúarnir hlægjandi. Texti þessa lags er eftir Hildi Guðnýju Þórhallsdóttur. Einnig sungum við lagið, Vaskur og félagar, lag og texti er eftir Örlyg Benediktsson. Það lag fjallar um öll dýrin í sveitinni og svo Vask sem segir voff, voff, voff og býður gesti velkomna á bæinn. Íbúarnir höfðu líka mjög gaman af þessu sönglagi. Undir vorið fórum við að syngja , Sól, sól skín á mig,  Vorvindar glaðir, Vertu til er vorið kallar á þig og Lóan er komin. Þegar við sungum þessi lög sungu allir íbúarnir með okkur. Fólkið var líka farið að syngja með í sumum hinna laganna.

Ég lagði ríka áherslu á það við börnin að við ættum að heilsa öllum með handarbandi og einnig að kveðja á sama hátt. Það voru alltaf sömu fjögur börnin sem sungu fyrir íbúana svo að fljótlega myndaðist vinátta á milli barnanna og þeirra. Oft áttu sér stað mjög skemmtileg samtöl á milli barnanna og eldra fólksins. Til dæmis sagði ein konan okkur að hún ætti átta stráka. Þegar hún var að tala við annan drengjanna sagðist hún alveg geta bætt honum við í strákahópinn sinn. Þá sagði söngfuglinn,, já þá áttu níu stráka.´´ Við komum alltaf um klukkan hálf ellefu og sungum í um það bil tuttugu mínutur á hvorum stað. Alltaf beið blessað fólkið uppábúið eftir okkur  og sagðist vera búið að bíða eftir okkur.  Í  hvert skipti sem við kvöddum sögðu flestir íbúanna að það væri óskaplega gaman að fá börnin í heimsókn. Margir sögðu:,, þið eruð góðir gestir.´´ Það er mín reynsla af þessum söngheimsóknum, að þær hafi verið auðgandi bæði fyrir íbúana og börnin.

Rós Ingadóttir, leikskólakennari á leikskólanum Álfheimum.