Álfheimar fékk úthlutað styrk úr Sprotasjóði vegna verkefnisins: Kortlagning grenndarskóga.

Sprotasjóður

 

Grenndarskógur Álfheima og Vallaskóla.

 

Markmið

 Frá árinu 2001 hefur leikskólinn Álfheimar á Selfossi farið í skógarferðir. Í framhaldi af því fékk leikskólinn Kristínu Norðdahl til þess að koma á fót þróunarverkefni  sem stuðlaði að skipulögðum ferðum með börn út í náttúruna. Þróunarverkefni stóð frá árinu 2002 – 2004. Æ síðan hefur hvert barn í Álfheimum farið einu sinni í viku í skógarferðir en frá árinu 2008 lengdist dvöl barnanna í skóginum og dvelja þau nú  í skóginum frá 10:30 – 15:00.

 Stór hópur sem útskrifast hefur frá Álfheimum hefur farið í Vallaskóla en lóðir skólanna liggja saman. Eins og fram kemur í skólanámskrám leik- og grunnskóla er mikil áhersla lögð á samskipti og samstarf milli skólastiga. Eins og segir í aðalnámskrá grunnskóla þurfa kennarar á báðum skólastigum að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars þannig að börn  upplifi samfellu milli leik- og grunnskóla. Til þess að tryggja að svo verði þurfa leikskólar og grunnskólar að vinna áætlun sem felur í sér sameiginlegar áherslur beggja skólastiga samkvæmt aðalnámskrá sem og ákvarðanir um verkferla og ábyrgð á framkvæmdinni (Aðalnámskrá grunnskóla 2011:55). Í aðalnámskrá leikskóla er kveðið á um að það sé mikilvægt að nám og uppeldi í grunnskóla byggi á fyrri reynslu og námi barna til að skapa þeim öryggi og ný námstækifæri. Þannig þarf sú þekking og þau viðfangsefni sem börnin voru að fást við í leikskólanum að verða grunnur sem grunnskólanámið byggir á, jafnframt því sem þau fá tækifæri til að takast á við ögrandi verkefni og öðlast nýja reynslu.

Kennarar og annað starfsfólk á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars og leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra (Aðalnámskrá leikskóla 2011:33).

Markmið verkefnisins er að kortleggja skóginn sem nemendur leikskólans hafa notað til útináms, þátttakendur verkefnisins eru Vallaskóli, leikskólinn Álfheimar, Suðurlandsskógar, Ólafur Oddsson uppeldisráðgjafi og verkefnisstjóri Lesið í skóginn. og umhverfisdeild Árborgar.

Notast verður við hugtakið grenndarskógur en grenndarskógur heiti yfir skólaskóga sem ætlaðir eru til útináms. Grenndarskógur er í göngufæri frá skólanum og er notaður í skipulegu útinámi sem tengist skólanámskrá og aðalnámskrá leik- grunnskóla. Honum er ætlað að auka fjölbreytni í skólastarfi og styðja við markmið um einstaklingsmiðað nám. Þá er einnig gert ráð fyrir að annað starf á vegum skólana s.s. uppákomur af ýmsum toga geti farið fram þar s.s. skólasetning og slit, afmæli, sýningar. viðburðir og verkefni af ýmsum toga.